Saga sveitarfélagsins.
Bláskógabyggð varð til sem sveitarfélag 9. júní 2002 við sameiningu þriggja sveitarfélaga, Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Nýtt nafn sveitarfélagsins er fengið að láni úr Þingvallasveit og tengist birkinu og bláma vatnsins. Saga eldri sveitarfélaga verður ekki rakin hér enda spannar hún stóran hluta Íslandssögunnar.
Neðangreind skýring hefur fengist frá forstöðumanni Örnefnastofnunar vegna nafnsins Bláskógar:
Bláskógar er svæðið norðan, vestan og sunnan Þingvallavatns, þ.e. Þingvallaskógur og Þingvallahraun, allur sigdalurinn, skógi og kjarri vaxinn. Nafnið er talið stafa af dökkum, blágrænum lit sem stundum slær á birkikjarrið á þessu svæði, t.d. í skúraveðri.Bláskógar við Þingvelli eru nefndir í Íslendingabók þar sem þess er getið að maður að nafni Þórir kroppinskeggi sem land átti í Bláskógum hafði orðið sekur um morð á þræl eða leysingja. Talið er líklegt að Þórir hafi búið á þeirri jörð sem síðar varð Þingvöllur. Land hans varð þess vegna allsherjarfé og lagt til alþingis. Í Landnámabók er nefndur Grímkell goði í Bláskógum og einni gerð Landnámu er nefnd Skálabrekka („þar sem nú heitir Skálabrekka í Bláskógum“). Í Ölkofra þætti er Þórhallur ölkofri sagður búa í Bláskógum á Þórhallsstöðum. Ölkofrahóll er nú nefndur á milli Þórhallsstaða og Skógarkots. Síðast var búið á Þórhallastöðum (Þórhallsstöðum) um 1704. Þeir eru ekki oft nefndir í síðari alda heimildum, t.d. hvorki í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns né sýslu- og sóknalýsingum Bókmenntafélagsins frá um 1840.
Bláskógaheiði er nefnd í Íslendingasögum og í Sturlungu og svo nefndist afrétturinn norður og vestur af Þingvöllum öldum saman. Það nafn setti Björn Gunnlaugsson á Íslandskort sitt 1844 sem annað nafn á Gagnheiði.
Í bók Björns Th. Björnssonar, Þingvellir – staðir og leiðir, er kort yfir Bláskóga: Þingvelli, þjóðgarð og nágrenni.
Helstu heimildir vegna nafnsins er að finna í Íslendingabók, Landnámabók, Íslendingasögum, Kristian Kålund: Íslenskir sögustaðir, Björn Th. Björnsson: Þingvellir.