Þingvallavegur opnaður

Vegurinn í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum var opnaður formlega í dag eftir endurbætur sem staðið hafa yfir frá því í júní 2018. Vegurinn er hinn glæsilegasti í alla staði, fellur vel að umhverfinu og eykur umferðaröryggi til mikilla muna. Frágangur í kringum vegstæðið er til mikils sóma en mikill metnaður var lagður í umhverfismál í öllu verkferlinu. Hámarkshraði á veginum verður 50 km á klst. Á næstunni verða settar upp myndavélar sem munu mæla meðalhraða ökutækja sem um veginn fara. Það voru Ari Trausti Guðmundsson formaður Þingvallanefndar, Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Sigurður Ingi Jóhannsson samönguráðherra sem klipptu á borðann og opnuðu veginn formlega.