Leikskólinn Álfaborg, Reykholt
Leikskólastjóri: Lieselot Simoen
netfang: lieselot@alfaborgleikskoli.is
Sími: 480 3050
Fax: 480 3001
Netfang: alfaborg@alfaborgleikskoli.is
Heimasíða: http://alfaborg.leikskolinn.is og http://alfaborg.blaskogabyggd.is
Viðtalstímar: Eftir samkomulagi
Saga Álfaborgar
Leikskólinn Álfaborg var stofnaður í Sumarbúðunum í Skálholti í október 1986. Í fyrstu var hann rekinn af foreldrum. Í mars 1989 er ákveðið að leikskólinn verði í gamla skólanum í Reykholti, þar sem hann er enn í dag. Haustið 1990 tók Biskupstungnahreppur við rekstrinum af foreldrum.
Stefna leikskólans
Leikurinn.
Leikskólinn er fyrsta skólastigið. Á því skeiði er leikurinn aðaltjáningarmáti, náms- og þroskaleið barnsins og því byggist leikskólastarf fyrst og fremst á leiknum. Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfs, lífstjáning og gleðigjafi barns. Hann er uppspretta sköpunar og hugmynda. Af leik skapast ný þekking, nýjar athafnir, tilfinningar og leikni. Félagsleg færni þeirra eykst í samskiptum þeirra við leikfélaga og þau læra að taka tillit til hvers annars og vinna saman. Leikur er líf og starf barnanna þar sem þau fá tækifæri til að vinna úr upplifunum sínum og geta sjálf skipað sér í ýmis hlutverk og virkjað þannig sköpunargáfu sína á margvíslegan hátt.
Áhersluþættir
-Nám í gegn um leik.
-Við leitumst við að sýna börnunum hlýju í samskiptum og að þau finni öryggi í leik og starfi.
-Að börnin læri að vera saman og vinna saman og að gleði og tillitssemi sé ríkjandi.
Þemavinna
Með þemavinnu er valið ákveðið viðfangsefni og reynt að nálgast það á sem flesta vegu. Byrjað er á nýju þema á haustin og unnið með það ýmist fram að jólum eða allan veturinn. Þemavinnan tekur svo mið af jólum og páskum og þá eru unnin verkefni sem tengjast hátíðunum. Einnig getur þemavinnan náð yfir atburði sem tengjast menningu og samfélagi s.s. réttum og þorra.
Foreldrasamstarf
Leikskólinn hefur átt gott samstarf við foreldra barnanna. Kynningarfundur er haldinn að hausti fyrir foreldra og einstaklingsviðtöl eru í febrúar – mars ár hvert. Foreldrafélagið hefur aðstoðað við ýmsar uppákomur og hátíðir og gefið leikskólanum góðar gjafir.
Samstarf leikskóla / grunnskóla.
Samstarf milli leikskólans og grunnskólans er þannig að elstu börn leikskólans fara í heimsókn í grunnskólann einn morgun í viku. Þannig skapast meiri samfella milli skólastiga og börnin aðlagast grunnskólanum og þeim reglum sem þar gilda.
Málörvun.
Markmið er að efla alhliða málþroska og tilfinningu fyrir málinu sem er undanfari lestrarnáms.
Tveir elstu árgangarnir eru í málörvunarhópum en einnig fléttast málörvun inn í allt daglegt starf leikskólans.
Að hausti er elsti árgangurinn látinn taka Hljóm próf.
Hreyfing
Markmið. Að efla alhliða hreyfiþroska sem undirstöðu alhliða þroska auk
líkamsvitundar og stuðla þannig að vellíðan og hreyfigleði.
Að fullnægja hreyfiþörf barna og styrkja sjálfsmynd með því að auka færni í fín-og grófhreyfingum.
Að efla samkennd og félagsþroska .
Stuðla að auknum hugtakaskilningi gegnum hreyfiþjálfun.
Gönguferðir, auka þol og auk þess styrkir góð hreyfing sjálfsmynd barnsins.
Tónlist
Markmið. Að börnin fái tækifæri til að njóta tónlistar, með hreyfingu, hlustun og hljóðgjöfum. Að auka næmi fyrir hljóðum og hrynjanda. Að börn læri mismunandi gerðir sönglaga og finni gleði í söng. Að börnin læri undirstöðu að slá takt.
Í söngstund er eitt barnanna söngstjóri og hann stjórnar því hvaða börn fá að velja lög úr söngkrukku.
Myndsköpun
Markmið. Örva sköpunargleði barna og auðga hugmyndaflug.
Að barnið kynnist mismunandi efnum og aðferðum í myndlist.
Að barnið gleðjist yfir verkum sínum og annarra.
Að barnið fái tækifæri til að túlka upplifanir sínar og reynslu í myndverkum sínum.
Náttúra og umhverfi
Markmið. Að börnin kynnist umhverfi sínu og sjái hvað náttúran hefur upp á að bjóða.
Leikskóladeild Bláskógaskóla, Laugarvatni
Sími: 480-3030
Netfang: blaskogaskoli@blaskogaskoli.is
Heimasíða: http://blaskogaskoli.is
Viðtalstímar: Eftir samkomulagi
Leikskóladeild Bláskógaskóla á Laugarvatni er tveggja deilda leikskóli. Yngri deildin heitir Bjarnalundur og eldri deildin Stóragil. Nöfnin Bjarnalundur og Stóragil eru örnefni hér í sveitinni. Skólinn rúmar 30 börn á aldrinum 18 mánaða til 6 ára og er yfirskrift leikskólans „Útivist og umhverfi“.
Leikskólinn starfar eftir Aðalnámskrá leikskóla, en einbeitir sér að starfsháttum/hugmyndafræði Reggio-Emilia. Í dagskipulagi leikskólans fyrir vikuna er tekið á öllum náms og þroskaþáttum sem getið er um í aðalnámskrá, s.s. tónlist, hreyfingu, málrækt, útiveru, myndsköpun, náttúru og umhverfi og menningu og samfélagi.
Allt starf með börnunum miðar að því að borin sé virðing fyrir þeim og náttúrunni. Í Reggio Emilia starfsháttunum er barnið í fyrirrúmi, hvað barnið getur og hvað við leikskólafólkið getum gert fyrir barnið fyrir áfamhaldandi þroska og hamingju. Hvert og eitt barn er einstakt. Leikskólafólkið hlustar á barnið af virðingu og treystir því. Öll börn hafa eitthvað til málanna að leggja. Börn eru hugsandi verur sem eru með kollinn fullan af hugmyndum.
Mjög mikil áhersla er lögð á útivist. Öll börnin fara í útivist alla daga vikunnar og einn dagur í viku er alltaf fyrir utan leikskólagarðinn. Börnin á eldri deildinni fara upp í skóg alla miðvikudaga og er farið kl. 9.00 og komið heim kl. 11.30. Í skóginum fá börnin að leika sér frjálst, fara í þrautabrautir í skóginum, fá nesti, við syngjum og lesum sögur.
Á Laugarvatni er mikið skólasamfélag. Hér er leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli og háskóli. Mjög mikið samstarf er milli skólastiga. Sérstaklega er mikið samstarf milli leik- og grunnskóla. Þau börn sem eru elst í leikskólanum fá einn skóladag í viku allan veturinn. Þá fara þau með sínum hópstjóra inn í tíma hjá yngsta árganginum í grunnskólanum, fara í frímínútur og svo fara börnin í heimilisfræði hjá heimilisfræðikennara grunnskólans.
Nánari upplýsingar um leikskólann má finna á heimasíðu hans: