Skógarkerfill breiðist nú hratt út í sveitarfélaginu og er afar brýnt að við tökum öll höndum saman um að útrýma honum. Enn er útbreiðsla hans viðráðanleg og enn er hægt að grípa til aðgerða gegn honum. Mikilvægt er að bíða ekki með aðgerðir, þær verða erfiðari og kostnaðarsamari eftir því sem tíminn líður en að lokum verður útbreiðslan kerfilsins óviðráðanleg.
Kerfillinn vex á frjósömu landi og verður plöntu- og dýralíf fábreytt þar sem hann vex. Hann kemur sér gjarna fyrir í gömlum túnum sem ekki eru í notkun og eyðileggjast þau og spillast sem ræktunarland á fáum árum. Rofhætta eykst þar sem kerfill vex þar sem undirgróður rýrist og yfirborðið verður bert og illa varið fyrir vatnsrofi að vetrarlagi.
Kerfillinn myndar mikil fræ og dreifist auðveldlega og getur útbreiðsla hans orðið stórt vandamál ef ekkert er að gert. Það er mikið hagsmunamál fyrir bændur og garðræktendur að takist að stöðva útbreiðslu hans.
Hægt er að sporna við útbreiðslu kerfils með því að:
- Rífa upp minni plöntur
- Stinga upp stærri plöntur og jarðvegsskipta þar sem þær hafa vaxið nokkur ár og fellt fræ
- Eitra fyrir plöntum
Athugið að sláttur getur aukið rótarskot kerfilsins þannig að hann breiðist enn hrarðar út og ætti helst að nota slátt sem fyrirbyggjandi aðferð áður en plantan kemst á legg.
Mikilvægt er að íbúar Bláskógabyggðar taki höndum saman um að eyða kerfli á jörðum sínum og í görðum.
Umhverfisnefndin hefur skorað bæði á Sveitarstjórn Bláskógabyggðar og Vegagerðina að leita allra leiða til þess að eyða kerfli í sveitarfélaginu og hefur þeim verið sent bréf þess efnis.
———————————–
Umhverfisnefnd Bláskógabyggðar
Hér fyrir neðan má smella á linka með upplýsingum um kerfilinn.
Skýrsla til Vegagerðarinnar 2014
Almennar upplýsingar um skógarkerfil
Minnisblað um eyðingu Kerfils í Eyjafirði
Skýrsla um eyðingu m.a. kerfils í Hrísey
Viðtal við Sigurð H Magnússon um kerfil á Suðurlandi árið 2011
Viðtal við Sigurð H Magnússon um kerfil í Hrunamannahreppi júní 2012
Upplýsingar um illgresiseyðinn Clinic
Svo er heimasíða um ágengar tegundir: http://agengar.land.is/