Tilkynning frá ferðaþjónustunni í Úthlíð

Mikill snjór og erfið færð – aðeins fært fyrir vel útbúna jeppa

Það hefur snjóað gríðarlega mikið í Úthlíð undanfarna viku. Við mokum alltaf á föstudögum og svo aftur á sunnudögum og erum að sjálfsögðu alltaf tilbúin að reyna að aðstoða gesti og gangandi eftir mætti. En það dugar oft ansi stutt ef úrkoman er mikil.

Nú er staðan þannig að veðurspáin fyrir laugardaginn allsvakaleg og ekki neitt ferðaveður, hvorki fyrir menn né mokstrartæki.

Viljum við því leggja á það áherslu að þeir einir verði á ferðinni í Úthlíð sem eru á mjög vel útbúnum bílum til vetraraksturs og eiga þangað brýnt erindi.

Bestu kveðjur og von um að allir séu sprækir og hressir þrátt fyrir þungan þorra.

Allir í Úthlíð