,,Tvær úr Tungunum“ á Kaffi Kletti á konudaginn

Fréttatilkynning

Viðburður febrúarmánaðar hjá Uppliti – Menningarklasa uppsveita Árnessýslu
„Tvær úr Tungunum“ á Kaffi Kletti á konudaginn

Umfjöllun um umtalaða dagatalsútgáfu Kvenfélags Biskupstungna, krydduð með söng tveggja félagskvenna, verður viðburður febrúarmánaðar hjá Uppliti – Menningarklasa uppsveita Árnessýslu, sem haldinn verður á Kaffi Kletti í Reykholti að kvöldi konudags, 21. febrúar, kl. 20.30.

Af þessu tilefni verður Kaffi Klettur með sérstakan konudagsmatseðil þetta kvöld og verður húsið opnað kl. 17 fyrir þá sem vilja taka kvöldið snemma og borða áður en þeir hlýða á kvenfélagskonurnar.
Svava Theódórsdóttir, gjaldkeri Kvenfélags Biskupstungna, sýnir myndir og segir frá hugmyndinni að baki útgáfu dagatalsins „Tvær úr Tungunum“, framkvæmdinni og blendnum viðbrögðum samfélagsins. Fyrir þá sem ekki þekkja til má geta þess að nokkrar félagskonur sátu fyrir fáklæddar við störf og leik – og gáfu út dagatal með myndunum, sem þær svo selja til styrktar góðum málefnum. Ekki voru allir á eitt sáttir um ágæti þessa uppátækis en nýverið hlaut kvenfélagið svo Sólskinsviðurkenningu ráðgjafarstofunnar Kynstur – fyrir að skora á hólm staðlaðar hugmyndir um kynverund kvenna og kvenfélagskonur. Í rökstuðningi með viðurkenningunni segir Jóna Ingibjörg Jónsdóttir kynfræðingur að konurnar séu sjálfstæðar, einlægar og geislandi af sjálfstrausti:  „Dagatalsmyndirnar sýna sterkar, glaðar konur. Kynstur vill stuðla að kynferðislega heilbrigðu samfélagi. Kvenfélag Biskupstungna fær viðurkenninguna fyrir að leggja sitt af mörkum með því að beina kastljósinu að jákvæðum hliðum mannlegrar kynverundar.“
Auk þess sem Svava fjallar um vinnuna við dagatalið og sýnir myndir munu tvær úr hópi félagskvenna, þær Aðalheiður Helgadóttir og Henríetta Ósk Gunnarsdóttir, syngja eins og þeim einum er lagið. Kvenfélagið verður svo með sérstakt konudagstilboð á dagatölunum.
Nú er Upplit komið á fulla ferð – en á fyrsta aðalfundi félagsins sem haldinn var á Hótel Heklu 27. janúar voru lögð drög að fjölbreyttri viðburðadagskrá næstu þriggja ára á samkomustöðum víðsvegar um uppsveitirnar. Má þar nefna fyrirlestra, gönguferðir, ljósmyndasýningar, málþing, tónleika og leiksýningar. Á Hótel Heklu þetta sama kvöld var jafnframt fyrsti viðburðurinn; kynning á leikriti um Gauk Trandilsson, sem Vilborg Halldórsdóttir, leikkona og leikstjóri, vinnur nú að fyrir Þjórsárdalsklasann „Undan öskunni“.
Gullkistukonurnar Kristveig Halldórsdóttir og Alda Sigurðardóttir hafa hannað merki félagsins og eru jafnframt höfundar nafnsins Upplit. Fyrri hluti þess vísar í uppsveitirnar. Síðari hlutinn vísar í að með því að rannsaka og miðla menningu uppsveitanna lítum við upp úr amstri hversdagsins, auk þess sem það gefur lífinu lit. Stundum er talað um að vera upplitsdjarfur – og óhætt er að segja að við getum borið höfuðið hátt og verið stolt þegar við tölum um menningu uppsveitanna.