Um greiðslu húsaleigubóta

Auglýsing um greiðslu húsaleigubóta árið 2006

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ákvað á fundi sínum þann 17. janúar 2006 að húsaleigubætur verði greiddar á árinu 2006 í samræmi við ákvæði laga nr. 138/1997.

Fjárhæðir húsaleigubóta verða sömu og grunnfjárhæðir sem ákveðnar eru í reglugerð frá félagsmálaráðuneytinu.

Umsóknir með fullnægjandi gögnum sem berast í síðasta lagi 16. dag mánaðarins, verða afgreiddar í sama mánuði, en umsóknir sem berast síðar, verða afgreiddar í næsta mánuði á eftir.

Húsaleigubæturnar greiðast mánaðarlega þann 1. hvers mánaðar eða næsta virkan dag þar á eftir vegna næsta mánaðar á undan og verða þær lagðar inn á bankareikning viðkomandi bótaþega.

Skilyrði fyrir rétti til húsaleigubóta eru m.a. að húsaleigusamningur sé gerður á staðfest eyðublað og að hann sé þinglýstur, nema þegar um íbúðir í eigu sveitarfélagsins er að ræða. Húsaleigusamningur má ekki vera til styttri tíma en sex mánaða. Leggja þarf fram staðfest afrit af skattframtali, launa/tekjuseðla síðustu þriggja mánaða og staðfestingu frá skóla um nám ef það á við.

Réttur til húsaleigubóta skapast ekki m.a. ef leigt er hjá nánum ættingja, ef einhver sem býr í sömu íbúð nýtur vaxtabóta eða ef ekki er sérsnyrting og séreldhús í viðkomandi húsnæði. Ath. þó ákvæði um húsnæði námsmanna og sambýli fatlaðra.

Ýmis önnur skilyrði eru fyrir greiðslu húsaleigubóta, vinsamlegast kynnið ykkur þau frekar hjá starfsmönnum á skrifstofu Bláskógabyggðar og fáið afrit af reglugerð um húsaleigubætur.

Úrskurður um rétt til húsaleigubóta gildir aðeins fyrir eitt almanaksár í senn.

Sveitarstjóri Bláskógabyggðar,
Valtýr Valtýsson