Umhverfisverðlaun Bláskógabyggðar 2012

Herdís Friðriksdóttir afhendir umhverfisverðlaun Bláskógabyggðar 2012

16848_IMG_3689

Þann 25. ágúst sl veitti Umhverfisnefnd Bláskógabyggðar umhverfisverðlaun. Að þessu sinni hlutu fyrirtæki verðlaun fyrir snyrtilegar lóðir.

Í ár komu 11 tilnefningar og þær lóðir sem tilnefndar voru eru hér í stafrófsröð:
Dalsel, Gistiheimili á Laugarvatni
Eddu Hótel á Laugarvatni
Garðyrkjustöðin Engi í Laugarási
Garðyrkjustöðin Espiflöt í Reykholti
Fontana Spa á Laugarvatni
Friðheimar í Reykholti
Galleríið á Laugavatni
Geysir í Haukadal
Garðyrkjustöðin Hveratún í Laugarási
Bifvélaverkstæðið Iða
Garðyrkjustöðin Kvistar í Reykholti

Umhverfisnefndin vann mat sitt út frá nokkrum viðmiðum eins og Sjónrænum áhrifum,   Heildarsvip lóðar og  Erfiðleikastigi við viðhald, (það er t.d. mun erfiðara að viðhalda snyrtimennsku á bifreiðaverkstæði en við sundstað svo dæmi sé tekið). En aukastig voru gefin fyrir eitthvað sem þótti sérstakt.

Fulltrúar Umhverfisnefndarinnar skoðuðu lóðirnar og gáfu þeim stig og það var úr vöndu að ráða enda margir mjög snyrtilegir í sveitafélaginu og hefði nefndin viljað geta verðlaunað fleiri.
Nefndin valdi þrjár lóðir sem þóttu standa uppúr en þeim var skipað í fyrsta, annað og þriðja sæti.

Þriðja sæti hlaut garðyrkjustöð sem framleiðir lífrænt ræktað grænmeti og kryddjurtir en þar er ekkert eitur notað til þess að halda illgresi niðri. Staðurinn fékk aukastig fyrir skemmtileg smáatriði og sniðugar útfærslur. Staðurinn er Engi í Laugarási og eigendur eru Sigrún Elfa Reynisdóttir og Ingólfur Guðnason.

Annað sætið hlaut nýlegur baðstaður á Laugarvatni þar sem falleg hönnun og snyrtileg aðkoma vekur athygli. Lóðin fékk aukastig fyrir fallega hönnun. Staðurinn er Fontana Spa á Laugarvatni og tók Anna G. Sverrisdóttir Framkvæmdastjóri Fontana Spa við verðlaununum.

Fyrsta sæti hlaut garðyrkjubýli í Reykholti. Margir tilnefndu þennan stað og ekki að undra. Lóðin er mjög snyrtileg og greinilegt að eigendur eru mikil snyrtimenni því hvert sem litið er er snyrtimennskan í fyrirrúmi. Þau fengu sérstakt aukastig fyrir að leggja bílunum á lóðinni í beina línu! Þetta er að sjálfsögðu Garðyrkjustöðin Kvistar en eigendur eru Hólmfríður Geirsdóttir og Steinar Á. Jensen.