Undraheimur Þingvalla

Endurmenntun Háskóla Íslands
Á þessu námskeiði fjalla sérfræðingar fjögurra fræðasviða um Þingvelli í tengslum við söguna, jarðfræði, lífríki Þingvallavatns og heimsminjaskrá. Einstakt námskeið fyrir alla þá sem vilja gera næstu Þingvallaferð að nýrri upplifun.

Á fyrra námskeiðskvöldinu verður rætt um sögu þjóðgarðsins og starfsemi hans í dag. Fjallað verður um Heimsminjaskrá Unesco og tilnefningu Þingvalla á skránna og hvaða þýðingu hún hefur haft.
Hugað verður að því hvað réði vali staðarins og rætt um vitnisburði fornleifa og breytingar af manna völdum. Var þingið sérstakt eða einstakt? Fjallað verður um hlutverk þess og þróun, breytingar með konungsvaldi og endalok þess á Þingvöllum.

Á seinna kvöldinu verður fjallað um landslag á Þingvöllum og mótun þess af eldvirkni og jarðskorpuhreyfingum. Hugað verður sérstaklega að sprungum og gjám, hrauni og gígum, móbergshryggjum, stöpum og flekaskilum.

Auk þess verður fjallað um lífríki Þingvallavatns, sem er einstakt í heiminum. Í því sambandi verður t.d. rætt um búsvæði lífvera, ólík afbrigði af bleikju og hornsílum og rannsóknir á þeim sem svara mikilvægum spurningum um þróun og myndun nýrra tegunda.

Kennarar: Einar Á. E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins á Þingvöllum,

Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræði við HÍ,

Páll Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ og

Skúli Skúlason, rektor og prófessor við Háskólann á Hólum

Tími: Þri. 8. sept. og fim. 10. sept., kl. 20:15 – 22:15

Verð: 8.700 kr.

Nánari upplýsingar og skráning hér eða í síma 525 4444