Ungmennafélag Biskupstungna 100 ára

Ungmennafélag Biskupstungna óskar öllum gleðilegs afmælisárs.
Ungmennafélagið okkar verður 100 ára á árinu. Það var stofnað á sumardaginn fyrsta árið 1908.
Efni þessa bréfs er að láta vita að ýmislegt er fyrirhugað að gera í tilefni afmælisins.
Áhersla verður lögð á að minna á þá starfsemi sem hefur verið mest áberandi í starfi félagsins
síðustu áratugi, en að sjálfsögðu verður ekki öllu gerð skil.
Afmælishátíðin sjálf verður á sumardaginn fyrsta 24.apríl.
Leikdeildin okkar er komin á fulla ferð með æfingar á afmælissýningu félagsins sem er leikritið „ Leynimelur 13“ undir leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar.
Í leikritinu eru 13 leikarar auk hjálparliðs. Stefnt er á frumsýningu 16.febrúar.
Íþróttadeildin hefur margt í huga og mun koma að afmælishátíðinni á ýmsan hátt. Deildin ætlar af því tilefni að fá nýja félagsbúninga.
Það fyrsta sem við bjóðum uppá á árinu er kvöldvaka í Aratungu laugardagskvöldið 9.febrúar með dagskrá sem verður betur kynnt þegar nær dregur.
Í vor er svo áætlað að fara í 3 kvöldgöngur sem allar verða á einhvern hátt tengdar sögu félagsins auk þess að vera góð útivist og hreyfing. Þessar gönguferðir verða miðvikudagskvöldin 11. 18. og 25. júní.
Auk þess sem hér hefur verið nefnt, verður afmælisins minnst með útgáfuriti sem á þessu stigi er ekki ljóst í hvaða formi verður en kemur fljótlega í ljós.
Seint í ágúst eða byrjun september er svo ætlunin að halda sveitaball í Aratungu með góðri hljómsveit.
Þetta er það sem stjórnskipuð afmælisnefnd hefur í huga nú í byrjun árs, en allar frekari hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar. Allir viðburðir verða betur kynntir þegar að þeim kemur.
Með bestu kveðjum.
Afmælisnefnd UMF. Bisk.
Gunnar Sverrisson
Matthildur Róbertsdóttir
Sveinn A. Sæland.