Uppsveitabrosið 10 ára

Þetta er í tíunda sinn sem brosið er afhent og sá sem hlýtur Uppsveitabrosið 2013 er Guðjón Bragason sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.  Einstaklega góð samvinna er milli Uppsveita Árnessýslu og starfsfólks Sambands íslenskra sveitarfélaga. Í því samstarfi hefur Guðjón Bragason komið að fjölmörgum verkefnum í mismunandi málaflokkum þar með talið skipulags- og ferðamálum.
“Uppsveitabrosið” er viðurkenning sem veitt er árlega einstaklingi eða fyrirtæki.
Bros frá Uppsveitunum til þeirra sem hafa lagt ferðaþjónustunni á svæðinu lið á jákvæðan uppbyggilegan hátt og stuðlað að samvinnu.  Markmiðið er að senda út jákvæð skilaboð og vekja athygli á því sem vel er gert.  Hugmyndin að “Uppsveitabrosinu“ kviknaði í stefnumótunarvinnu sem fram fór 2003 og hefur verið afhent árlega síðan.  Þetta er því í tíunda sinn sem Uppsveitirnar senda þetta sérstaka bros frá sér.
Brosið er óáþreifanlegt, en því fylgir ávallt hlutur sem handverks- eða listamaður í Uppsveitunum býr til hverju sinni.  Í ár var það ljósmynd „Sólstafir“ eftir Ívar Sæland ljósmyndara frá Espiflöt.
18542_bros 2014
Oddvitanefnd Uppsveita Árnessýslu ásamt ferðamálafulltrúa sveitarfélaganna fóru í heimsókn til Sambands íslenskra sveitarfélaga, áttu þar góða stund og samræður ásamt því að afhenda brosið.

Brosandi frá vinstri:  Skafti Bjarnason oddviti Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Ragnar Magnússon oddviti Hrunamannahreppi, Guðjón Bragason Uppsveitabroshafi, Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu, Gunnar Þorgeirsson oddviti Grímsnes og Grafningshreppi, Drífa Kristjánsdóttir oddviti Bláskógabyggð, Kristófer Tómasson sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Karl Björnsson framkvæmdastjóri og Magnús Karel Hannesson sviðsstjóri Sambandsins.

Skafti oddviti smellti fram vísu í tilefni dagsins:
Frá þingi er lengi laga von
Lítt við skiljum – nokkur.
Gott er að Guðjón Bragason
Getur bjargað okkur.