Útfærsla á frestun fasteignagjalda

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum hinn 27. mars s.l. að fresta eindögum fasteignagjalda hjá rekstraraðilum sem verða fyrir tekjutapi vegna áhrifa Covid-19 vegna fasteigna sem skattlagðar eru í c-flokki. Gert var ráð fyrir að ríki og sveitarfélög myndu koma upp sameiginlegri gátt þar sem rekstraraðilar gætu sótt um frestun eindaga á gjöldum til ríkis og sveitarfélaga, en af því verður ekki.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti því á fundi hinn 16. apríl að eindagar fasteignagjalda í mars, apríl, maí og júní, vegna eigna sem bera fasteignaskatt í c-flokki verði færðir aftur hjá þeim rekstraraðilum sem verða fyrir tekjutapi vegna áhrifa af Covid-19. Fyrirkomulagið verði þannig að sækja skal um frestun með tölvupósti á netfangið
blaskogabyggd@blaskogabyggd.is og gera stuttlega grein fyrir samdrætti í rekstri og tekjutapi vegna faraldursins.
Breyting á eindögum verður eftirfarandi: Fasteignagjöld sem eru með gjalddaga 1. mars verða með eindaga 30. ágúst, fasteignagjöld sem eru með gjalddaga 1. apríl verði með eindaga 30. september, fasteignagjöld sem eru með gjalddaga 1. maí verði með eindaga 30. október og fasteignagjöld sem eru með gjalddaga 1. júní verði með eindaga 30. nóvember.
Sveitarstjórn veitir innheimtufulltrúa, í samráði við sveitarstjóra, heimild til að afgreiða umsóknir um frestun eindaga i samræmi við samþykkt þessa.