Veggteppin og klæðið fljúgandi

Í borðstofu Hússins á Eyrarbakka hefur verið hengd upp sýning á veggteppum úr fórum Byggðasafns Árnesinga. Veggteppin koma víða að. Meðal þeirra sem saumað hafa veggteppin má nefna Árnýju Filippusdóttur í Hveragerði, Þórdísi Símonardóttur ljósmóður á Eyrarbakka og Guðrúnu Guðmundsdóttur á Sunnuhvoli á Stokkseyri.  Einnig eru á sýningunni veggteppi frá fleiri stöðum úr héraðinu.

Auk veggteppanna er á sýningunni mjög merkur gripur, „klæðið fljúgandi“ eða líkkistuklæði Ingibjargar Jónsdóttur sem fæddist að Gaulverjabæ árið 1875 en dó í Suður- Kaliforníu 1964. Ingibjörg ólst að verulegu leyti upp hjá séra Valdimari og Ólöfu Briem á Stóra-Núpi. Um tvítugt giftist Ingibjörg Bjarna Guðmundssyni smið á Stokkseyri. Voru þau svo fátæk að þau höfðu engin ráð til að setja bú saman. Fór Bjarni til Vesturheims er þau höfðu átt þrjú börn. Árið eftir braust hún til Winnipeg með tvö af börnum þeirra og fann mann sinn. Síðan byggðu þau sér bjálkakofa í Saskatchewan og bjuggu þar í tuttugu ár áður en þau fluttu til Kaliforníu. Alla tíð var hugur hennar bundinn æskustöðvunum. Hún skrifaðist á við séra Valdimar og í fimmtíu ár geymdi hún, eins og helgan dóm, þurrkuð blóm sem hann hafði tínt og sent henni. Þegar hún lá banaleguna fékk hún tvö af börnum sínum til að hjálpa sér við að sauma líkkistuklæði þar sem blómin eru felld inn í teppið. Heilagur andi í dúfulíki skreytir miðju klæðisins en sá fugl skyldi bera sál hennar heim til Íslands er yfir lyki.

Húsið á Eyrarbakka verður opið um páskana sem hér segir: Kl. 14-17 frá 16. apríl til 25. apríl og á öðrum tímum eftir samkomulagi við Lýð safnstjóra í síma 891 7766. Eftir páska verður hægt að líta sýninguna augum eftir umtali fram til 8. maí.

15461_1836