Viðburður aprílmánaðar hjá Uppliti á Kaffi Grund á Flúðum fimmtudagskvöldið 29. apríl

Hvítur hestur, önnur vera og öreigar

Listasafn Árnesinga og þrír myndlistarmenn úr uppsveitunum eru viðfangsefni viðburðar aprílmánaðar hjá Uppliti – Menningarklasa uppsveita Árnessýslu, sem haldinn verður á Kaffi Grund á Flúðum fimmtudagskvöldið 29. apríl kl. 20.30. Þá fjallar Inga Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Árnesinga, í máli og myndum um þrjá listamenn hvern af sinni kynslóðinni sem allir eiga rætur í uppsveitum Árnessýslu, auk þess sem hún kynnir safnið og starfsemi þess. Hvernig titillinn „Hvítur hestur, önnur vera og öreigar“ tengist efninu kemur í ljós þá um kvöldið.

Inga veltir upp spurningunum: Hvernig staður er Listasafn Árnesinga? Er það „ykkar safn“ eða „okkar safn“? Hvaða starfsemi fer þar fram? Grunninn að safninu lagði Bjarnveig Bjarnadóttir árið 1963, en þá færði hún og synir hennar Árnesingum stóra listaverkagjöf og hún hélt áfram að bæta við gjöfina í nokkur ár til viðbótar. Í júlí 1978 er þetta eftir henni haft: „Þessi málverk voru gefin af heilum hug og með þeirri ósk að gjöfin yrði til menningarauka fyrir sýsluna og lyftistöng fyrir uppvaxandi kynslóð, en góð list, hvort sem hún heitir myndlist, tónlist eða um er að ræða aðrar listgreinar, veitir gleði og eykur þroska þeirra sem njóta.“ Bjarnveig var á þessum tíma fyrsti forstöðumaður Ásgrímssafns í Reykjavík, sem opnað var 1960. Þar var hún brautryðjandi í að taka á móti skólahópum og miðla til þeirra myndlist en henni  var kappsmál að sem flestir fengju notið þeirrar ánægju.

Tengja má að minnsta kosti þrjá mikilsvirta myndlistarmenn við uppsveitir Árnessýslu, en það eru þau  Einar Jónsson frá Galtafelli í Hrunamannahreppi (1874 –1954), Jóhann Briem frá Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi (1907-1991) og Brynhildur Þorgeirsdóttir frá Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi (fædd 1955).  Á núverandi sýningu í Listasafni Árnesinga, ÍSLENSK MYNDLIST – hundrað ár í hnotskurn,  má sjá verk eftir þau öll og fleiri verk eftir þau hafa tengst fyrri sýningum safnsins. Inga mun kynna þessa listamenn og ræða um verk þeirra en einkum hvernig þau hafa tengst sýningunum.

Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.