Viðburður hjá Uppliti í Lindinni á Laugarvatni sunnudaginn 30. maí

Um námsmeyjar og skólapilta í broshýru landslagi Laugarvatns

Saga skólanna á Laugarvatni og fólksins sem sótti þá er viðfangsefni viðburðar maímánaðar hjá Uppliti – Menningarklasa uppsveita Árnessýslu, sem haldinn verður á Lindinni á Laugarvatni sunnudagskvöldið 30. maí kl. 20.30. Þá verður jafnframt opnuð sýningin „Gamli Húsó“, þar sem gefur að líta gamlar ljósmyndir sem varpa ljósi á sögu hússins.

Eyrún Ingadóttir sagnfræðingur fjallar um viðhorf nemenda á fyrstu
árum Héraðsskólans að Laugarvatni sem stofnaður var árið 1928 – og fléttar saman við sögu staðarins og skólanna sem þar spruttu upp í
kjölfarið. Yfirskrift erindisins er Um námsmeyjar og skólapilta í broshýru landslagi Laugarvatns – og er ætlunin að skyggnast inn í líf nemenda af báðum kynjum sem sóttu skóla á Laugarvatni, hvað þeir voru að sýsla og hugsa. „Að skapa lífsverðmætin í okkur sjálfum“ er undirtitill erindisins – en það er tilvitnun í handskrifað skólablað Héraðsskólans frá árinu 1930 sem Eyrún mun m.a. leggja út frá.

Eyrún er fróð um sögu skólanna á Laugarvatni, en árið 1995 kom út bók hennar Að Laugarvatni í ljúfum draumi – Saga Húsmæðraskóla Suðurlands. Hún er auk þess stúdent frá ML og bjó seinna í Héraðsskólanum í nokkur ár á tíunda áratug síðustu aldar.

Sýningin „Gamli Húsó“ opnuð á Lindinni

Á Lindinni, sem hýsti forðum Húsmæðraskóla Suðurlands, og þar sem nú er veitingastaður, verður eins og áður sagði opnuð sýning á ljósmyndum úr sögu hússins. Allir þeir sem hafa einhverja tengingu við Lindina eru hvattir til að mæta og þeir sem eiga ljósmyndir og muni frá fyrri tímum hússins eru hvattir til að hafa samband við Baldur Öxdal Halldórsson, veitingamann á Lindinni, sem hefur veg og vanda af uppsetningu sýningarinnar. Tilvalið er að nota tækifærið og bregða sér í menningarferð á Laugarvatn; hlýða á erindi Eyrúnar, skoða sýninguna um sögu Lindarinnar og njóta góðra veitinga. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis. Þeir sem ráðgera að mæta fyrr og borða á Lindinni eru hvattir til að panta borð áður.