Áhersla á öryggi gangandi vegfarenda við skóla og þjónustustofnanir sveitarfélagsins
Í fjárhagsáætlun næsta árs, sem samþykkt var af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 11. desember, er lögð áhersla á að bæta öryggi gangandi vegfarenda við skóla og aðrar stofnanir sveitarfélagsins. Á síðustu árum hefur verið unnið að úrbótum, svo sem með nýju sleppisvæði sem skólabílar nýta við Reykholtsskóla og með gerð göngustígs á kafla á milli Bláskógaskóla á Laugarvatni og íþróttahússins.
Á árinu 2025 er stefnt að enn frekari framkvæmdum á þessu sviði. Á dagskrá er að leggja göngustíg frá Miðholti í Reykholti meðfram Skólavegi að íþróttavelli. Sömuleiðis verði gerð gangstétt frá Miðholti að Brekkuholti, auk þess sem lokið verður við malbikun gangstéttar í Miðholti. Við Bláskógaskóla á Laugarvatni verði lagður göngustígur frá skólanum meðfram bílastæðum við HÍ og göngustígur frá skólanum að Hrísholti endurbættur og malbikaður. Loks verði settar tvær upphækkaðar gangbrautir (hraðahindranir) með góðri lýsingu, annars vegar á Lindarbraut og hinsvegar á Laugarbraut á móts við íþróttahúsið.