Fjárhagsáætlun samþykkt

Fréttir 22.12.2025

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum 10. desember sl fjárhagsáætlun fyrir árið 2026, ásamt 3ja ára áætlun.

Áætlað er að rekstrarafgangur samstæðu verði 252,3 millj.kr. Sem fyrr eru það fræðslumálin sem taka til sín stærstan hluta heildartekna, eða 57%, æskulýðs- og íþróttamál taka til sín 7,4% og umferðar- og samgöngumál 4,8%. Frístundastyrkur til barna og ungmenna hækkar og verður kr. 60.000 og máltíðir á leik- og grunnskólum verða áfram gjaldfrjálsar. Þá verður áfram boðið upp á heimgreiðslur til foreldra barna á aldrinum 12-24 mánaða, kr. 180.000 í 10,5 mánuði á ári, kjósi foreldrar að setja börn sín ekki á leikskóla. Álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðir, jarðir og frístundahús lækkar úr 0,45% í 0,43%, eða um 4,4%, og þak verður sett á fjárhæð fráveitugjalds, 200.000 kr. Gjaldskrár hækka almennt um 3,5%. Teknir verða upp styrkir til kaupa og uppsetningar á varmadælum í íbúðarhúsum á svæðum þar sem hitaveitu nýtur ekki við og íbúar njóta niðurgreiðslna húshitunarkostnaðar frá Orkustofnun.

Gert er ráð fyrir fjármagni til viðhalds fasteigna og gatnakerfis. Áhersla verður lögð á viðhald Bláskógaskóla á Laugarvatni og Reykholtsskóla, auk félagsheimilisins Aratungu og íþróttahússins á Laugarvatni. Áætlað er að verja 944,4 millj.kr. til fjárfestinga á árinu. Er þar um að ræða verkefni á sviði gatnagerðar, svo sem við Traustatún, Kotstún og Fálkamýri á Laugarvatni, Sólbraut í Reykholti, auk þess sem áætlað er að fara í gatnagerð í Laugarási. Þá er gert ráð fyrir að umtalsverðu fjármagni verði varið til framkvæmda við hitaveitu, einkum virkjun nýrrar borholu á Laugarvatni, uppsetningu vatnstanks til miðlunar á köldu vatni á Laugarvatni, lagningu ljósleiðara, endurbyggingu sundlaugar í Reykholti og viðbyggingu við íþróttahúsið á Laugarvatni. Lokið verður við að malbika Borgarrima í Reykholti og haldið áfram að leggja göngustíga og gangstéttar, m.a. við Háholt og Skólatún á Laugarvatni, Kistuholt í Reykholti og Vesturbyggð í Laugarási. Þá er gert ráð fyrir hönnunarvinnu vegna stækkunar og breytinga á húsnæði leik- og grunnskóla sveitarfélagsins.

Gert er ráð fyrir lántökum að fjárhæð 600 millj.kr og að greidd verði niður lán um 202 millj.kr. Áætlað er að skuldaviðmið skv. sveitarstjórnarlögum verði áfram langt undir lögboðnu hámarki, sem er 150%, en skv. áætluninni mun það vera um 60,2% í lok ársins 2026.