Forgangsröðun í gatnagerð og lagningu göngustíga

Fréttir 11.12.2024

Á fundi sveitarstjórnar 11. desember var samþykkt forgangsröðun til næstu 3ja ára hvað varðar gatna- og göngustígagerð. Áhersla er á að ljúka á árinu 2025 við þá gatnagerð sem staðið hefur yfir á Laugarvatni og í Reykholti, en ekki náðist að ljúka malbikun gangstétta að fullu á þessu ári, þar sem tafir urðu á vinnu við malbikun og veðurfar bauð ekki upp á slíka vinnu þegar verktaki var tilbúinn í verkið.

Á árinu 2025 verður unnið að hönnun gatna og undirbúningi frekari gatnagerðar á Laugarvatni, í Reykholti og í Laugarási, þ.e. næsta áfanga í Tungurima í Reykholti og Traustatúni á Laugarvatni og í Austurbyggð/Lindartúni í Laugarási. Nokkrar byggingarlóðir eru lausar til úthlutunar eins og er, en ráðgert er að lóðaframboð verði aukið á árinu 2026 með gatnagerð í öllum þéttbýliskjörnunum.

Hvað önnur verkefni á sviði gatnagerðar varðar, þ.e. lagfæringar á eldri götum, má nefna að á árinu 2025 verður malbikað að Björk og Bjarkarlundi á Laugarvatni og lokið við að koma upp götulýsingu í Bæjarholti í Laugarási, að Ferjuvegi. Þá verður Holtagata í Laugarási lagfærð við gatnamót Skálholtsvegar. Í forgangsröðuninni er gert ráð fyrir að á árinu 2026 verði, auk nýframkvæmda, lagt slitlag á Bjarkarbraut og Lyngbraut í Reykholti og lagðar gangstéttar meðfram Kistuholti og Sólbraut, á Laugarvatni verði plan við íþróttahús og sundlaug malbikað og lokið við gangstétt við Skólatún og Háholt. Í Laugarási verði sett upp götulýsing og gengið frá gangstétt í Vesturbyggð.

Áætlunina má nálgast hér.