UTU flytur í nýtt húsnæði

Fréttir 06.05.2024

Starfsemi skipulags- og byggingafulltrúaembættisins á Laugarvatni (UTU) hefur nú flutt í nýtt og glæsilegt húsnæði á Laugarvatni. Skrifstofan hefur frá stofnun embættisins verið í húsnæði Bláskógabyggðar að Dalbraut 12 á Laugarvatni. Það húsnæði var komið til ára sinna og þarfnaðist mikils viðhalds, til að standast þær kröfur sem gerðar eru til skrifstofuhúsnæðis. Nýja húsið sem er staðsett að Hverabraut 6 er glæsilegt í alla staði og er gamla Smíðahúsið á Laugarvatni fyrirmyndin. Það voru Selásbyggingar sem byggðu húsnæðið og er Hákoni Páli Gunnlaugssyni, eiganda fyrirtækisins þökkuð góð störf. Eftir er að ganga frá lóðinni og aðkomu að húsnæðinu en það verður gert í sumar. Nýja húsnæðið að Hverabraut 6 verður fljótlega opið fyrir almenning til sýnis, en það verður auglýst sérstaklega á miðlum sveitarfélagsins. Á myndunum eru Hákon Páll Gunnlaugsson, eigandi Selásbygginga, Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar og Nanna Jónsdóttir, skrifstofustjóri UTU, er Hákon Páll afhenti lykla að nýja húsinu. Eigandi hússins er Bláskógabyggð, en gengið hefur verið frá leigusamningi við UTU.